Rekavík bak Látra

Aðalvík, við Sæból

Straumnesfjall og Straumnesviti

Sléttuhreppur

Sléttuhreppur, á norðanverðum Vestfjörðum, var nyrsti hreppur landsins, hann takmarkaðist af úthafinu í vestur í norður af Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum að sunnan og suðaustan. Aðeins einn hinna fimm Jökulfjarða tilheyrði Sléttuhreppi, Hesteyrarfjörður, hinir tilheyrðu Grunnavíkurhreppi. Hreppamörk í Jökulfjörðum voru við Lás, nes sem er á milli Hesteyrarfjarðar og Veiðileysufjarðar, og að norðan á Sigmundarhjalla á Hornbjargi. Sunnanvert í mynni Jökulfjarðanna er lítil vík sem nefnist Grunnavík, öndvert henni að norðan gengur fram lítið nes og stendur þar bærinn Slétta sem hreppurinn dró nafn sitt af. Slétta var ein mesta kostajörð hreppsins og fór í eyði árið 1947. Í dag tilheyrir fyrrum Sléttuhreppur Ísafjarðarbæ.

Hornstrandir

Stærsta víkin í Sléttuhreppi er Aðalvík og liggur hún í vestur, yst á kjálkanum sem tilheyrir Hornstrandafriðlandi. Hún er sex til sjö km á breidd og álíka löng og horfir víkin til norðvesturs á móti úthafinu. Að sunnan afmarkast hún af fjallinu Rit en að norðan af háu fjalli sem kallast Látrafjall. Undir því er sérkennileg hvilft sem kallast Kvíin. Slíkar hvilftir eða skálar má finna víða á Vestfjörðum. Hún hefur myndast undan svokölluðum skálarjökli sem hreyfist stöðugt í hringi. Þar sem þetta gerist við ströndina líkjast skálarnar helst stuttum dölum. Við þessa hamraskál kenndi Þuríður sundafyllir Kvíarmið í Ísafjarðardjúpi. Norðan við víkina eru Látrar og sunnantil er Sæból. Utan Látra verður hlíð þessi sæbrött og nefnist Straumneshlíð en ysti oddi fjallsins er lítið nes sem Sraumnes heitir. Fyrir botni víkurinnar eru fjórir dalir. Staðardalur er syðstur, þá Þverdalur, Miðvíkur og Stakkadalur. Norðan Straumness er Rekavík, lítil vík með töluverðu undirlendi. þar er allstórt vatn. Norðaustan Rekavíkur er fjallið Hvesta og aðskilur það víkina frá Fljóti.
Á Látrum og Sæbóli mynduðust vísar að þorpum í tengslum við sjósókn og útgerð og byggðist afkoma íbúanna á gjafmildi sjávarins ásamt landbúnaði. Byggðin á Látrum er á svonefndu Látranesi. Þar var fyrst byggt 1878 eftir að skriðuföll þrengdu að gamla bæjarstæðinu innar undir fjallinu. Árið 1920 voru búsettar þar 18 fjölskyldur, alls um 110 manns. Þar var byggður barnaskóli um aldamótin 1900. Sími kom á Hesteyri árið 1922 og símalína var lögð sama ár þaðan að Látrum og 1939 að Sæbóli. Síðasti ábúandinn á Látrum flutti þaðan árið 1952.

Adalvik